Varp tjaldsins brást algerlega á Suðurlandi í sumar

Verónica Méndez Aragón, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, hefur varið stórum hluta af sínum vísindaferli hér við rannsóknir á tjaldinum. José Alves sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetrið hefur m.a. unnið náið með henni. Ljósmynd/HÍ

„Þetta sumar var gríðarlega þurrt á Suðurlandi og varla kom dropi úr lofti. Við sáum í rannsóknum okkar hvernig fullorðnir fuglar, sem halda til á túnum sunnan lands, áttu í gríðarlegum erfiðleikum með að finna æti fyrir ungana og jafnvel sjálfa sig.“

Þetta segir Verónica Méndez Aragón sem er nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.  Hún hefur varið stórum hluta af sínum vísindaferli hér við að rannsaka þennan fallega vaðfugl. Rannsóknirnar hófust af fullum þunga sumarið 2015 og hafa verið fjármagnaðar af Rannís og breska rannsóknaráðinu NERC. Verónica vinnur rannsóknirnar í samstarfi við teymi af vísindafólki og áhugamönnum. José Alves sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetrið hefur m.a. unnið náið með henni.

Mikill ungadauði í þurrkatíðinni
Þau segja að í sumum tilvikum hafi tjaldurinn algerlega hætt við varp þar sem hann hafði ekkert aðgengi að fæðu og á svæðum inn til landsins þar sem tjaldar reiða sig á ánamaðka hafi verið mikill ungadauði í þurrkunum í sumar.

Verónica segir að á Íslandi noti tjaldar einkum tvenns konar búsvæði. Hluti stofnsins haldi sig gjarnan í fjörum og á leirum eða lítt grónum svæðum við strendurnar. Þessir tjaldar lifa á því sem fjörurnar færi þeim og er það mest kræklingur og annar skelfiskur. Aðrir tjaldar sæki í tún og graslendi en þeir verpi flestir inn til landsins.

Nánast um náttúruhamfarir að ræða
„Tjaldur er sérkennilegur vegna þess að ólíkt öðrum vaðfuglum, þá fóðra fullorðnir fuglar ungana en láta þá ekki um að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ungarnir eru af þessum sökum gjarnan vel fóðraðir þar sem fullorðnir fuglar þekkja varplandið gríðarlega vel og þá möguleika sem svæðið býður upp á varðandi það að finna æti,“ segir Verónica.

Verónica segir að sunnanlands sé stærstur partur af stofninum í túnum og graslendi og þar hafi nánast verið um náttúruhamfarir að ræða fyrir þennan fugl í sumar. „Það var mjög óvenjulegt ástand því það skorti algerlega úrkomu, vatnsborð varð þannig mjög lágt í tjörnum og skurðum, og tjaldurinn gat hvergi grafið sig í gegnum grjótharðan jarðveginn, hann var svo þurr. Þetta er langversti varpárangur tjaldsins á þessu svæði frá því við hófum rannsóknir okkar árið 2015.“

Frétt á vef HÍ

Fyrri greinValli Reynis og Gaui Tobba vígðu Bennavöll
Næsta greinStrandhreinsun á Eyrarbakka á laugardag