Varnargirðingum ekki haldið við

Bændur í Biskupstungum óttast að riðusmit kunni að berast frá Norðurlandi í sumar. Matvælastofnun ætlar ekki að lagfæra sauðfjárveikivarnargirðingu á Kili vegna fjárskorts og það sama gildir um fleiri girðingar sem eru skemmdar.

Sauðfjárveikivarnargirðingin á Kili liggur milli Langjökuls og Hofsjökuls, aðskilur Norður- og Suðurland og tryggir að fé gangi ekki á milli Húnavatnssýslna og Biskupstungna. Kristján Jónsson, bóndi í Stóradal, hefur séð um að halda girðingunni við og fengið greitt frá Matvælastofnun. Á föstudag fékk hann þau svör að ekki ætti að gera við girðinguna í sumar.

Sigríður Jónsdóttir, sauðfjárbóndi í Arnarholti í Biskupstungum, sagði í samtali við RÚV að bændur væru ósáttir við það ef Matvælastofnun ætli ekki að gera við girðinguna á Kili.

„Það komu nú bara upp þrjú riðutilfelli á Norðurlandi í fyrravetur. Það er búið að skera niður vegna riðu hér í Tungunum tvisvar með kostnaðarsömum og sársaukafullum aðgerðum og ef þessi girðing er ekki í lagi er algjörlega fyrir séð að það myndi margt fé streyma þarna á milli sem má bara ekki gerast,“ segir Sigríður í samtali við RÚV. Hún bendir að vegna þess hve seint voraði séu Húnvetningar að fara að sleppa á næstu dögum eða innan hálfs mánaðar. „En tíminn er fljótur að líða og það verður að leysa úr þessu máli. Það verður að vera hægt að gera við girðinguna um leið og hún kemur undan snjó.“

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun þurfti vegna fjárskorts að forgangsraða þeim girðingum sem verður haldið við í sumar og urðu nokkrar, sem hefði þurft að laga, útundan. Bjarki Rafn Kristjánsson, forstöðumaður rekstrar og mannauðssviðs MAST, segir það mjög bagalegt. „Við höfum verið að berjast fyrir þessu fjármagni undanfarin ár. Höfum fengið viðbótarfjárveitingu og framlag úr sjóðum en núna virðist allt vera upp urið.“

Frétt RÚV

Fyrri greinHeiðrún Kristmunds í Hamar
Næsta greinÁrborg á toppinn