Varnargarðar Markarfljóts hækkaðir og styrktir

Þessa dagana er unnið að því að hækka varnargarðinn við Markarfljót sem liggur frá Stóra Dímon niður að gömlu Markarfljótsbrúnni sem byggður var árið 1933.

Þegar gaus í toppgíg Eyjafjallajökuls í apríl árið 2010 fylgdu tvö stór jökulflóð í kjölfarið. Varnargarðakerfið stóðst að mestu þessi flóð, en sumir garðanna skemmdust töluvert og ekki mátti tæpara standa að flóðin færu yfir þá suma.

Ríkisstjórnin lagði fram sértakt fjármagn til brýnustu viðgerða, en Vegagerðin og Landgræðsla ríkisins kostuðu einnig hluta af viðgerðunum. Jafnframt unnu stofnanirnar að áhættugreiningu á ástandi varnargarðanna og í kjölfarið fékkst viðbótarfjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða við þá garða þar sem þörfin var talin mest.

Vegagerðin hannaði framkvæmdirnar og bauð út verkið í vetur. Um er að ræða að hækka og styrkja níu varnargarða, auk bakkavarna og byggingu nýs garðs.

Áætlaður verktaka kostnaður nam 115 milljónum króna. Átta fyrirtæki buðu í verkið en verktakafyrirtækið Urð og grjót ehf. í Reykjavík bauð lægst eða um 75 milljónir króna og er nú að vinna við framkvæmdir.

Garðurinn frá Stóra-Dímon niður að gömlu brúnni var fyrst byggður árið 1933 og á sínum tíma fóru í hann um 12.000 dagsverk, eða fleiri en þurfti til að byggja lengstu steinsteyptu brúna á landinu á þeim tíma, þ.e. gömlu Markarfljótsbrúna, sem staðið hefur af sér öll jökulhlaup sem á hana hafa dunið fram að þessu.

Fyrri greinFimm efstu hjá Hægri grænum
Næsta greinGunnsteinn ráðinn í Ölfusið