„Varla hægt að hugsa sér verri útkomu“

Miðjan á Hellu. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga áréttar mikilvægi dagvöruverslana fyrir nærumhverfið en lokun þeirra getur haft umtalsverð neikvæð áhrif á byggðaþróun og getur rýrt samkeppnishæfni sveitarfélaga sem ákjósanlegs búsetukosts til framtíðar.

Þetta kemur fram í bókun á síðasta stjórnarfundi SASS en tilefnið er staða verslunarmála á Hellu. Meðal þeirra skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti fyrir sameiningu N1 og Festar árið 2018 var að hið sameinaða félag myndi selja Kjarval á Hellu. Það hefur ekki gengið eftir og mögulega verður versluninni lokað.

„Það er varla hægt að hugsa sér verri útkomu fyrir samkeppni um dagvöruverslun í Rangárvallasýslu en þá að loka einu matvörubúðinni í öðru kauptúninu,“ segir í bókun stjórnar SASS.