Varaspennirinn tengdur á sunnudag

Prófunum er lokið hjá Landsneti á varaspenni sem skipta á út fyrir þann sem bilaði í tengivirkinu í Rimakoti í Landeyjum í fyrrakvöld.

Þær gengu vel og verður spennirinn fluttur austur í Rimakot í dag. Í framhaldinu verða spennaskiptin undirbúin og er nú stefnt að því að tengja varaspenninn inn á kerfið á sunnudag. Með þessum aðgerðum á að vera hægt að tryggja forgangsorkunotendum í Vestmannaeyjum nægt afl en skerðingar til annarra notenda verða áfram í gildi þar til viðgerð er lokið á spenninum sem bilaði.

Allt kapp er lagt á að flýta flutningi á varaspenninum austur og er reiknað með að hann geti verið tilbúinn til innsetningar í Rimakoti á sunnudagsmorgun. Tengingartíminn var ákveðinn í samráði við HS Veitur og Rarik á Suðurlandi en sú aðgerð tekur allt að sólarhring.

Laskaði spennirinn í Rimakoti var spennusettur á ný í gærkvöldi á litlu afli og tókst það vel. Í morgun hefur álagið verið aukið smávegis og gengur það vel enn sem komið er og hefur Rarik m.a. fengið afl fyrir Víkurlínu 1. Strax og varaspennirinn hefur verið tengdur fer spennirinn sem bilaði í viðgerð. Ætla má að hún taki að lágmarki eina viku en það fer þó eftir alvarleika bilunarinnar.

Með þeim bráðbirgðaaðgerðum sem verið er að ráðast í af hálfu Landsnets ætti að vera hægt að tryggja forgangsnotendum nægt afl en skerðingar til annarra verða áfram í gildi.

Fyrri greinSpaðar á Töðugjöldum í Árnesi
Næsta grein„Jazz er samnefnari fyrir svo margt“