Vara við íshellinum í Gígjökli

Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli telur ástæðu til að vara ferðaþjónustuaðila og ferðamenn við íshellinum í Gígjökli. Kona hlaut höfuðáverka þegar grjót hrundi á hana við hellirinn í dag.

„Hellirinn er fallegur og spennandi en ofan við hellismunan er malarruðningur ofan á ísnum og þaðan geta komið steinar, sér í lagi í hláku eins og í dag. Þá er einnig rétt að áminna að þetta er skriðjökull, þ.e. ísinn er að skríða fram og hvenær hrynur úr honum er erfitt að segja,“ segir í færslu á Facebooksíðu Dagrenningar.

Þar sem konan hlaut höfuðáverka var brugðið á það ráð að ræsa þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutti hún konuna á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Þyrlan var kölluð út kl. 12:15 og var flogið beina leið á slysstað en búið hafði verið um konuna í björgunarsveitarbíl. Var konan flutt yfir í þyrluna sem lenti við Landspítalann kl. 13:51.

Fyrri greinLenti undir grjóti við Gígjökul
Næsta greinVinna rammaskipulag á Fjallabakssvæðinu