Varað við vatnavöxtum

Næstu þrjá daga, frá þriðjudegi 11. október til fimmtudagsins 13. október er búist við miklu vatnsveðri á Suðurlandi. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla en einnig er útlit fyrir talsverða úrkomuákefð á láglendi.

Sólarhringsúrkoma gæti farið vel yfir 200 mm og afrennsli mun aukast verulega. Varað er við enn meiri vexti í ám vestur- og suður af Langjökli, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.

Samkvæmt nýjustu veðurspám gætu vatnavextir orðið svo miklir að flóðahætta skapist, t.d. á vatnasvæði Hvítár. Mjög mikið rennsli er nú þegar í Hvítá við Fremstaver.

Fyrri greinMotley með helming stiganna
Næsta greinFjármunir fást til tækjakaupa