Varað við vatnavöxtum á Suðurlandi

Veðurstofu Íslands hefur sent frá sér viðvörun þar sem spáð er talsverðri rigningu um landið sunnan- og vestanvert. Vegna hlákutíðar framundan er mikilvægt að fylgjast með niðurföllum, ræsum og í kjöllurum húsa.

Veðurstofan spáir talsverðri rigningu seint í dag, miðvikudag 9. mars og fram yfir hádegi á morgun, fimmtudag, 10. mars. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 50 mm.

Meðal annars er varað við vexti í ám á Hvítársvæðinu suður af Langjökli, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Fólk er beðið um að sýna aðgát í nágrenni vatnsfalla og sérstaklega ef fara þarf yfir ár, þar sem vöð geta orðið varhugaverð.

Um helgina er útlit fyrir áframhaldandi suðlægar áttir með vætusömu og mildu veðri og eru líkur á að á sunnudaginn verði fyrsta asahláka ársins með miklum hlýindum. Því má gera ráð fyrir vatnavöxtum um mest allt land og að afrennsli gæti orðið mjög mikið. Við slíkar aðstæður gæti skriðuhætta aukist.

Fyrri greinÚkraínskt söngvaskáld á Rauða húsinu
Næsta greinHamar tapaði í jöfnum leik