Varað við öflugri lægð

Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á óvenju öflugri lægð, miðað við árstíma, sem fer yfir landið á þriðjudag og miðvikudag

Á þriðjudag verður lægðin vestur af landinu og vindáttin því suðaustlæg og má búast við að vindstyrkurinn verði á bilinu 10-18 m/s, einna hvassast um landið SV-vert og hviður við fjöll allt að 35 m/s. Þessu fylgir mikil rigning, mest sunnanlands síðdegis og um kvöldið.

Á miðvikudag er að sjá að lægðin fari til norðausturs og verði skammt norður af landinu. Á þessari stundu er óvíst hvar versta veðrið verði, en vísbendingar eru um að mesti vindurinn verði úr norðvestri um landið suðvestanvert um kvöldið á meðan mesta úrkoman verður líklega norðvestanlands og á Vestfjörðum.

Síðan er gert ráð fyrir að lægðin fari til austurs og ákveðin norðanátt taki yfir með rigningu fyrir norðan, en þurrt að kalla syðra.

Lítið þarf út af að bera í staðsetningu lægðarinnar til að áhvarða hvar versta verðið verður á hverjum tíma, þannig að einhverra breytinga er að vænta þegar nær dregur.

Ferðalangar sem eru með aftanívagna eru beðnir um að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga og að þeir sem eru að fara að heiman að huga að lausamunum.

Fyrri greinLeit lokið í Bleiksárgljúfri
Næsta greinMótmæli frá nágrönnum segja lítið