Varað við miklum vatnavöxtum

Á morgun, þriðjudag er spáð alldjúpri lægð fyrir suðvestan og vestan land. Veðrinu fylgir mikil rigning sunnanlands og má búast við miklum vatnavöxtum næstu daga.

Vindáttin verður suðaustlæg og má búast við að vindstyrkurinn verði á bilinu 10-18 m/s, einna hvassast suðvestan- og vestanlands og hviður við fjöll allt að 35 m/s. Þessu fylgir mikil rigning, mest sunnanlands síðdegis og um kvöldið.

Á miðvikudag er að sjá að lægðin fari norðaustur yfir landið og verði við NA- ströndina síðdegis. Vindur snýst í vestan og norðvestan 10-20 m/s, hvassast norðvestantil. Áfram vætusamt, einkum á N- og NV-landi.

Á fimmtudag er útlit fyrir að dragi úr vindi, en áfram er spáð talsverðri rigningu á norðanverðu landinu.

Búast má við miklum vatnavöxtum á landinu næstu daga og að gefnu tilefni eru ferðalangar, bæði þeir sem eru með aftanívanga og aðrir beðnir um að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga.

Spáð er mikilli rigningu á Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Suðausturlandi frá seinni hluta mánudags, 30. júní, og fram yfir miðnætti á miðvikudag. Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum, sólarhringsúrkoma gæti farið vel yfir 150 mm og afrennsli mun aukast verulega. Meðal annars er varað við vexti í ám suður af Langjökli, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.

Samkvæmt nýjustu veðurspám gætu vatnavextir orðið svo miklir að flóðahætta skapist. Ferðafólk er því eindregið varað við að aka yfir varhugaverð vöð á ám á ofangreindum svæðum. Einnig er varað við mögulegri hættu á aurflóðum í sunnanverðum Eyjafjallajökli, sem t.d. gætu fallið í Svaðbælisá.

Fyrri greinRúmlegar áttatíu hjóluðu frá Reykjavík
Næsta greinRaw gulrótarkaka