Varað við vatnavá

Spáð er mikilli rigningu á Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Suðausturlandi á morgun, laugardag og fram á aðfaranótt mánudags.

Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 100 mm.

Veðurstofan varar við vexti í ám í kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð.