Varað við stormi á miðvikudag

Veðurstofan gerir ráð fyrir vonskuveðri með samgöngutruflunum á landinu á morgun, fyrst um landið sunnan- og vestanvert.

Í dag, þriðjudag, er útlit fyrir tiltölulega rólegt veður, minnkandi norðaustlæga átt, 5-13 m/s síðdegis. Él eða dálítil snjókoma í flestum landshlutum. Frost 0 til 8 stig, kaldast fyrir norðan.

Á morgun gengur í suðaustan og austan 20-28 m/s sunnan- og vestanlands með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu syðst. Vægt frost en hiti um eða yfir frostmarki sunnantil seinnipartinn.

Á miðvikudagskvöld og aðfaranótt fimmtudags dregur verulega úr vindi og úrkomu á landinu.

UPPFÆRT KL. 16:18: Um og upp úr miðri nóttu hvessir með skafrenningi á fjallvegum suðvestanlands. Að auki hríðarveður og blint undir morgun og enn vaxandi vindur. Á áttunda tímanum í fyrramálið er spáð hviðum, 30-35 m/s undir Eyjafjöllum.

Fyrri greinPrentsögusetrið verður hýst á Eyrarbakka
Næsta greinKirkjubekkjaenglar gæta kirkjugesta