Varað við hlaupvatni og eiturgufum

Hlaup er hafið úr vestari Skaftárkatlinum undir Vatnajökli. Lögreglan á Hvolsvelli varar ferðamenn við því að fara að upptökum Skaftár vegna hugsanlegra eiturgufa.

Í gærkvöldi jókst rafleiðni á vatnamælingastöðinni í Skaftá við Sveinstind. Frá því kl. 21 í gærkvöldi hefur mikil ísskjálftavirkni mælst á jarðskjálftamælum við vesturhluta Vatnajökuls. Staðsetning þeirra benti til þess að vatn úr vestari Skaftárkatlinum sé að brjóta sér leið undir jöklinum niður í Skaftá og yfirflug hefur staðfest að hlaupið komi úr vestari katlinum.