Varað við ferðum í Kristalinn

Í dag barst Veðurstofunni tilkynning um óvenjulega lykt við íshelli í Breiðarmerkurjökli sem kallast Kristallinn.

Ferðaþjónustuaðilar sem voru að kanna aðstæður við íshellinn sögðu að lyktin hafi verið sterkari seinni part dags og að gasmælir hafi varað við súrefnisleysi inní hellinum, en þeir ákváðu að yfirgefa staðinn í framhaldinu.

Búið er að gera lögreglu viðvart og hafa starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs haft samband við alla ferðaþjónustuaðila á svæðinu varðandi málið. Ekki er vitað hvaða lofttegund veldur mengun á svæðinu eða hver uppruni hennar er, en Veðurstofan í samstarfi við Lögregluna á Suðurlandi stefnir að því að gera mælingar á svæðinu á morgun.

Veðurstofan varar við ferðum um íshellinn, a.m.k. þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.

Fyrri greinGóður sigur hjá Ægismönnum
Næsta greinMargt í boði í Hveragerði um páskana