Varað við brennisteinsmengun

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands þá vex hægt í Skaftá.

Náið er fylgst með framvindu hlaupsins og hafa íbúar í nágrenni farvegs árinnar sem og rekstraraðilar fjallaskála í nágrenni hennar verið upplýstir um stöðu mála. Fjallaskálar nálægt farvegi Skaftár eru við Sveinstind, í Skælingum og í Hólaskjóli.

Almannavarnir vara við brennisteinsmengun sem helst gætir nærri upptökum hlaupvatnsins. Fólk er beðið um að varast að vera á ferð þar sem brennisteinslyktar gætir.

Lögreglan á Hvolsvelli hvetur fólk til þess að fara varlega við Skaftá og forðast upptök hennar sem eru í Vatnajökli fyrir austan Langasjó.