Varðstjóri sýknaður af ákæru

Lögregluvarðstjóri á Selfossi var í Héraðsdómi Suðurlands í dag sýknaður af ákæru fyrir brot í opinberu starfi.

Varðstjórinn var kærður fyrir að fara offari og ekki gæta lögmætra aðferða er hann hafði afskipti af nítján ára gömlum pilti á útihátíð í Galtalæk í júlí í fyrra.

Var varðstjórinn ákærður fyrir að hafa fyrirskipað öðrum lögreglumönnum að aka með piltinn, sem var undir áhrifum áfengis, frá mótssvæði í Galtalæk rúma 4 kílómetra og skilja hann eftir þar.

Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að pilturinn hafði komið til lögreglu um nóttina og viljað fá að blása í alkóhólmæli lögreglu. Hafi honum verið tjáð að ekki væri ástæða til þess þar sem hann væri greinilega ölvaður. Pilturinn gaf sig ekki og bankað í sífellu á rúður lögreglubifreiðarinnar. Hafi honum ítrekað verið gefin fyrirmæli um að láta af háttseminni, yfirgefa vettvang og hætta að ónáða lögreglumenn að störfum. Hafi pilturinn ekki sinnt fyrirmælum lögreglu og að lokum verið dreginn burt af lögreglumanni.

Lögreglumennirnir óku piltinum út fyrir svæðið kl. hálf tvö um nóttina og fór hann þá að nálægum sumarbústað og barði þar að dyrum. Húsráðendur voru gengnir til náða og vöknuðu skelfingu lostnir við það að pilturinn sparkaði í hurðir á bústaðnum. Fólkið kallaði eftir aðstoð lögreglu sem sótti manninn og var honum ekið eftir Landvegi uppfyrir Galtalækjarskóg.

Þá kemur fram í skýrslunni að í bæði skiptin sem pilturinn var tekinn upp í lögreglubílinn hafi hann margítrekað hótað lögreglunni.

Segir í dómi héraðsdóms að ljóst sé af framburði lögreglu og vitna að pilturinn var mjög ölvaður og að honum hafi ekki búið nein hætta af því að vera skilinn eftir þar sem veður var gott og hann vel búinn auk þess sem hann átti ekki í vandræðum með að komast til baka mótssvæðið. Enda hafi mótssvæðið verið sjáanlegt þaðan sem honum var sleppt auk þess sem nokkur umferð hafi verið á svæðinu á þessum tíma.

Fyrri greinMúlakvísl veitt undir bráðabirgðabrúna
Næsta greinUmferð gæti komist á um helgina