Varð undir snjóhengju

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti alvarlega slasaðan mann á fertugsaldri sem hafði orðið undir snjóhengju á Kili um kl. 10 í morgun.

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um slysið rétt um kl. 10. Maðurinn var í hópi kvikmyndagerðarfólks við vinnu rétt sunnan við Bláfellsháls.

Hann stóð undir snjóhengju sem gaf sig og féll ofan á manninn. Hann hlaut alvarlega bakáverka, auk brjóstáverka og innvortis meiðsla. Maðurinn var illa haldinn að sögn lögreglu, en ekki í lífshættu.

Auk sjúkrabifreiðar frá Selfossi voru björgunarsveitir frá Reykholti, Laugarvatni og Flúðum kallaðar á vettvang. Sjúkrabíllinn komst ekki alla leið á slysstaðinn vegna færðar en björgunarsveitarmenn sóttu hann og óku honum að sjúkrabílnum sem beið við Sandá.

Þyrlan komst ekki ofar en í Úthlíð vegna skyggnis en maðurinn var kominn um borð í þyrluna kl. 12:04. Þyrlan lenti við Borgarspítalann í Fossvogi kl. 12:36.