Varð undir fjórhjóli og fótbrotnaði

Unglingspiltur á fjórhjóli fótbrotnaði á Skammadalsheiði í Mýrdal í gær eftir að hann fékk fjórhjólið yfir sig.

Mikið torleiði var á slysstað og þurfti að kalla til björgunarsveitarmenn til aðstoðar auk þess sem maður, sem var þar á ferð á breyttum jeppa, hjálpaði til við að koma viðbragðsaðilum á staðinn.

Slysið varð með þeim hætti að fjórhjólið stöðvaðist skyndilega vegna bilunar og valt yfir ökumanninn. Pilturinn mun hafa fótbrotnað og var honum komið niður af heiðinni þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur tóku við honum og í framhaldi var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að maður hafi slasast er hann féll af stiga sem rann undan honum þegar hann var að mála íbúðarhús á Hellu. Fallið var um þrír metrar. Talið var að maðurinn hefði fótbrotnað og því var hann fluttur með sjúkrabíl til læknis.