Varð undir fiskikari – erill hjá sjúkraflutningamönnum

Maður slasaðist á brjóstkassa er hann fékk fiskikar yfir sig sem var verið að hífa upp úr lest báts í Þorlákshöfn í morgun.

Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala í Fossvogi. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hve alvarlega hann er slasaður.

Töluverður erill var hjá sjúkraflutningamönnum á Selfossi í morgun. Skömmu eftir slysið í Þorlákshöfn varð bílvelta við Kjartansstaði í Flóa þar sem tveir slösuðust.

Mitt á milli þessara tveggja atvika féll maður rúman hálfan metra af tröppum niður á stigapall fjölbýlishúss á Selfossi. Maðurinn var nokkuð þjáður eftir fallið og var hann fluttur með sjúkrabifreið til læknis á Selfossi. Ekki er frekar vitað um hver meiðsl hans eru.