Varð fyrir torfærubíl

Torfærujeppi rann úr brekku og á konu í bæjargarðinum á Selfossi í dag. Konan meiddist á fæti en er óbrotin.

Bílarnir voru til sýnis í brekku í bæjargarðinum en tveir litlir drengir fengu að setjast upp í bílinn og virðist annar þeirra hafa rekist í gírstöngina svo að bíllinn rann af stað niður brekkuna og lenti á konunni.

Fljótlega tókst að stöðva bifreiðina og að sögn lögreglu fór betur en á horfðist.