Vandlátir sígarettuþjófar handteknir

Lögreglan handtók í gærkvöldi þrjá pilta grunaða um innbrot í söluskálann Björkina á Hvolsvelli í fyrrinótt. Myndir úr öryggismyndavélum sýna að þeir gengu hreint til verks og tóku aðeins ákveðnar sígarettutegundir.

Piltarnir sem eru allir undir tvítugu eru grunaðir um að hafa stolið um 20.000 sígarettum og hefur mestallt þýfið nú fundist. Verðmæti þýfisins var á aðra milljón króna.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is náðust mjög skýrar myndir af þjófunum á öryggismyndavélar í Björkinni. Þeir brutu rúðu og komust þannig inn, gengu hratt til verks og stálu aðeins ákveðnum sígarettutegundum.

Af einhverjum ástæðum létu þeir tegundina Gold Coast vera og sömuleiðis vindlinga og tóbak.

Ekki er um góðkunningja lögreglunnar að ræða en piltanir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu og naut lögreglan á Hvolsvelli aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við lausn málsins.