Vandkvæði að fá fólk í vinnu

Ólafur Snorrason, hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, segir verkefnastöðu Ræktó þolanlega um þessar mundir og sagðist hann halda að hún dygði ágætlega fram á haust.

Það hafa þó verið nokkur vandkvæði að fá fólk í vinnu og sagði Ólafur að það hefði komið honum á óvart hve tregt það væri miðað við tölur um atvinnuleysi.

Fyrir skömmu fékk Ræktó nýtt borunarverkefni við Hólmsá þar sem verið er að skoða 80 MW virkjun eins og greint var frá í Sunnlenska fyrir skömmu. Ólafur sagði að það væri verkefni upp á um 50 milljónir króna. Þá var Ræktó með lægsta tilboð í borverkefni í Kjósarhreppi og sjóvarnargarð á Eyrarbakka sem unnið verður við í sumar.