Valt útaf Biskupstungnabraut

Jeppabifreið valt útaf Biskupstungnabraut á níunda tímanum á föstudagskvöld þegar ökumaður hennar reyndi að forðast bíldekk sem kom á ferðinni á móti honum.

Dekkið hafði losnað undan bíl sem kom úr gagnstæðri átt og þegar ökumaður jeppans reyndi að sveigja frá hafnaði hann utan vegar og valt þar á toppinn. Engin slys urðu á fólki í þessu óhappi.

Annars voru tuttugu umferðaróhöpp tilkynnt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Meðal annars var ekið á 9 ára dreng á reiðhjóli sem slasaðist lítillega og ökumaður flutningabíls slasaðist á fótum þegar bíllinn valt í Kömbunum. Beita þurfti klippum til að ná honum út úr bílnum.

Sex önnur slys á fólki voru tilkynnt til lögreglu, þar sem fólk hafði dottið af hestbaki eða hrasað á göngu, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Fyrri greinÖndverðarnes og Hvergerðingar upp um deild
Næsta greinEllefu próflausir ökumenn stöðvaðir