Valt undan kraparegni

Lítil fólksbifreið valt skömmu eftir hádegi í gær á Suðurlandsvegi á móts við Hvammsveg í Ölfusi.

Ökumaður sem var einn í bifreiðinni var fluttur með sjúkrabíl á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar en meiðsli hans reyndust minni háttar.

Krapi var á veginum og mun ökumaður fólksbifreiðarinnar hafa misst stjórn á henni þegar krapi gekk yfir bifreiðina frá vöruflutningabifreið sem kom á móti.