Valt eftir árekstur

Tveir bílar rákust saman á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Oddgeirshólum í Flóahreppi í kvöld með þeim afleiðingum að annar bíllinn valt.

Bílunum var báðum ekið í austurátt og hugðist ökumaður fremri bílsins beygja til vinstri inn á Oddgeirshólaveg. Ökumaður aftari bílsins reyndi þá framúrakstur með þeim afleiðingum að bílarnir lentu saman og sá aftari valt.

Ökumennirnir voru einir á ferð og sluppu án teljandi meiðsla en ökumaður bílsins sem valt var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Bíllinn sem valt var óökufær eftir óhappið en hinum var ekið af vettvangi.