Valt á hliðina eftir harðan árekstur

Enginn slasaðist alvarlega við harðan árekstur á gatnamótum Austurvegar og Tryggvagötu á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Þrír bílar voru óökufærir eftir áreksturinn.

Aðdragandi slyssins var með þeim hætti að jeppabifreið var ekið suður Tryggvagötu, þvert yfir Austurveginn í veg fyrir bíl sem ók austur Austurveginn. Við áreksturinn kastaðist jeppinn á þriðja bílinn, sem beið kyrrstæður eftir að komast inn á Austurveginn. Jeppinn valt á hliðina í framhaldi af því.

Auk ökumannanna voru farþegar í tveimur bílanna en enginn slasaðist alvarlega. Bílarnir voru allir fluttir mikið skemmdir af vettvangi með dráttarbílum.

Gatnamótunum var lokað á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á slysstaðnum.

Fyrri greinSlökkviliðsmenn hafa þungar áhyggjur
Næsta greinEkki slegist um óskilahrossin