Valdimar nýr formaður kúabænda

Félag kúabænda á Suðurlandi hélt aðalfund sinn sl. mánudag. Á fundinum var Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ kjörinn nýr formaður félagsins, en Þórir Jónsson á Selalæk lét nýverið af formennsku af persónulegum ástæðum.

Fundurinn samþykkti samhljóða ályktun um sæðingamál á fundinum þar sem fram kemur að félagið telji ekki rétt að sameina sæðingarstarfsemi á öllu landinu að svo stöddu hendur eru sæðingarstöðvarnar hvattar til að hagræða sem mest í rekstri sínum.

„FKS telur ekki rétt að sameina sæðingastarfsemi á öllu landinu að svo stöddu. Nýtt ráðgjafafyrirtæki bænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf, hefur litið dagsins ljós. Óljóst er ennþá hvernig starfsemi búnaðarsambandanna verður í framhaldinu og hvernig framlögum til kynbótastarfsins verður varið. Það er álit FKS að fyrst eigi að sjá hvernig þessi breyting á ráðgjafaþjónustunni kemur út áður en farið er að skoða sameiningar á sæðingarstarfseminni. Kynbótastöð Suðurlands hefur hagrætt í sínum rekstri og endurskipulagt sæðingarnar. Teljum við nauðsynlegt að aðrir landshlutar reyni einnig að hagræða sem mest í sínum rekstri áður en hægt er að ræða um sameiningar.“

Fyrri greinHótelbygging gengur vel
Næsta greinHefur áhyggjur af Kumbaravogi