„Vakti ekki fyrir mér að splundra samfélaginu“

„Ég var kosin ný inn í sveitarstjórn síðastliðið vor en varð að segja af mér í liðnum mánuði eftir einungis árs setu þar,“ segir Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, sem nýlega lét af störfum í sveitarstjórn Rangárþings eystra vegna ágreinings við félaga sína í meirihlutanum.

Aðalbjörg er í viðtali í Sunnlenska fréttablaðinu sem kom út í dag. Þar segir hún lítinn tilgang í því að sitja í meirihluta þar sem að búið er að ákveða málin til afgreiðslu út úr sveitarstjórn áður en þau hafa fengið næga umræðu.

Kornið sem fyllti mælinn var hækkun á launakjörum oddvita. „Ég átti erfitt með að sætta mig við þá niðurstöðu, að svona væri hægt að koma málum í gegn. Fyrir mér var þetta einfalt, það er ekki rétt að lofa hlutum eða ákveða án þess að hafa fyrir því samþykki þeirra sem sem sitja í meirihlutanum. Þegar ég óskaði eftir að fá að taka upplýsta umræðu um launahækkunina innan meirihlutans mætti ég því viðmóti að það mál væri útrætt og mér gert það ljóst að ég yrði að samþykkja það ellegar hætti oddvitinn og ég tæki við,“ segir Aðalbjörg. Hún segir það ekki hafa vakað fyrir sér.

Hún segir allan vilja hafa skort hjá sveitarstjóra og oddvita til að ræða hlutina. „Það varð til þess að ég lagði árar í bát og lét undan þrýstingi um að segja af mér. […] Fyrir mér vakti aldrei að splundra samfélaginu, eins og mér hefur verið borið á brýn, enda gerist slíkt ekki nema að vilji þeirra sem að stjórna sveitarfélaginu standi til þess.“

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinGóður sigur á Gróttuvelli
Næsta greinMikil aukning útkalla BÁ frá því í fyrra