Væringar innan meirihlutans

„Ég veit ekki annað,“ segir Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti meirihlutans í Rangárþingi ytra, aðspurð hvort hún hafi á starfhæfum meirihluta að skipa.

Fyrir um tíu dögum hófust óformlegar þreifingar um myndun nýs meirihluta í sveitarfélaginu.

Átti þar í hlut Margrét Sigurgeirsdóttir, fulltrúi Á-listans, en hún og minnihlutamenn í D-listanum áttu fundi um mögulegt samstarf, allt þar til um síðustu helgi þegar ákveðið var að reyna það ekki frekar um sinn.

„Ég held að þetta hafi bara verið þreifingar og þær hafi klárast,“ segir Guðfinna.

Samkvæmt heimildum Sunnlenska var umræðan um nýjan meirihluta komin svo langt í síðustu viku að Drífa Hjartardóttir, fyrrum alþingismaður, sat fund með Margréti og var orðuð við starf sveitarstjóra.

Ekki náðist í Margréti við vinnslu fréttarinnar.

Fyrri greinBryndís Sigurðar: Nýja Ísland
Næsta greinÁrni með þætti á Suðurland FM í vetur