Í gærkvöldi voru björgunarsveitir í báðum Skaftafellssýslum boðaðar út vegna ferðamanns í Skaftafelli sem hafði ekki skilað sér úr göngu. Verið var að undirbúa leit þegar samband náðist við manninn sem reyndist þá vera slasaður.
Björgunarfólk hélt fótgangandi að staðnum og skömmu síðar bauð Atlantsflug fram þyrlu sem er í Skaftafelli til að staðsetja manninn og flytja bjargir að honum. Sjúkraflutningamaður frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands fór með þyrlu Atlantsflugs og skömmu síðar komu þau auga á manninn. Þyrlan lenti fyrir ofan slysstað og sjúkraflutningamaður gekk niður að manninum.
Björgunarsveitarmaður frá Kára í Öræfum kom gangandi á staðinn skömmu síðar og saman bjuggu þau manninn undir flutning, meðal annars með því að koma honum fyrir í grjónadýnu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom svo á staðinn rétt um klukkan 22 og var maðurinn hífður um borð í þyrluna en þá hafði þyrla Atlantsflugs þurft frá að hverfa vegna myrkurs. Sá slasaði var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans fluttur með þyrlu LHG til aðhlynningar.

