Útsvarstekjur hækka um 26 milljónir

Reiknað er með að útsvarstekjur á næsta ári verði 26 milljón krónum hærri en á yfirstandandi ári í Hrunamannahreppi. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun hreppsins sem rædd var á síðasta fundi sveitarstjórnar.

Engu að síður er gert ráð fyrir að framlag úr jöfnunarsjóði lækki um 13 milljónir króna. Fyrir liggur að fasteignamat hækki almennt um 7,8 prósent og á lóðum um 9 prósent. Gert er ráð fyrir fjölgun eigna á fasteignaskrá. Smávægileg lækkun er fyrirhuguð á álagningu í A-flokki fasteigna, úr 6 prósentum í 5,9 prósent en aðrar eignir breytast ekki.

Gert er ráð fyrir að tekjur vegna fasteignagjalda hækki um kr. 6,8 milljónir frá áætlun 2013 með viðaukum. Lóðaleiga verði áfram 0,5% af fasteignamati. Gjaldskrár hækki almennt um 4-5%. Rekstur einstakra málaflokka var yfirfarinn með hliðsjón af áætlun 2013 með viðaukum og gerðar breytingar eftir því sem ástæða var talin.