Útlitið blátt en loftgæðin góð

Skyggnið er lélegt í Sandvíkurhreppnum og sést varla upp á Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lítið skyggni er í Ölfusinu og Flóanum þessa stundina, og sjálfsagt víðar á Suðurlandi, vegna blámóðu frá eldgosinu á Reykjanesi. Skyggni er ekki mikið meira en 3-4 km.

Þrátt fyrir að útlitið sé blátt þá eru loftgæði góð, samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar. Eini virki loftgæðamælirinn í byggð á Suðurlandi er í Hveragerði og þar var styrkur brennisteinsdíoxíðs 94,1 µg/m³ klukkan 13.

Ástandið var verra í nótt og í morgun en á milli klukkan þrjú og fimm var styrkur brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu í Hveragerði um og yfir 100 µg/m³ sem eru óholl loftgæði samkvæmt vef Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt gasdreifingarspá Veðurstofunnar verður mengunin viðvarandi á öllu Suðurlandi fram á mánudagskvöld, eða eins langt og spálíkanið nær.

Fyrri grein„Tengslin við náttúruna eru að rofna en áhuginn er til staðar“
Næsta greinFjölgar hratt í Hveragerði – Íbúar í GOGG orðnir 500