Útlitið í byggingariðnaði aldrei verra

„Það eru fleiri svartsýnir fyrir þennan vetur en verið hefur,“ segir Valdimar Bjarnason formaður Meistarafélags Suðurlands um ástandið í byggingariðnaðinum á Suðurlandi.

Félagið hefur sent nokkrum sveitarfélögum á Suðurlandi bréf þar sem hvatt er til þess að sveitarfélögin ráðist í auknar ný- eða viðhaldsframkvæmdir. Slíkt sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir flótta úr greininni og að verkþekking tapist. Ástandið sé mjög alvarlegt.

Valdimar segir að Sunnlendingar sem starfað hafi í iðngreinum séu í auknum mæli að flytjast til útlanda eða hverfa úr sérhæfðum greinum til annarra starfa. Hætta sé á að þeir skili sér ekki til baka.

„Byggingaverktakar hafa orðið einna verst úti í þessu ástandi og staðan er einfaldlega og orðin verulega erfið mörgum. Það komast eflaust ekki allir útúr þessu,“ segir Valdimar. Í bréfi Meistarafélagsins segir að sveitarfélög verði að velta hlutunum fyrir sér upp á nýtt og forgangsraða verkefnum með tilliti til atvinnusköpunnar. Aðspurður um viðbrögð við bréfi félagsins sagði Valdimar hafa fengið almennt orðuð bréf frá tveimur sveitarfélögum, Árborg og Hveragerði. Bréfið var tekið upp í bæjarráði þessara tveggja bæjarfélaga í síðustu viku.

Valdimar segir að þrátt fyrir slæmt útlit segist hann ekki mæla að verið sé að pressa niður laun að neinu marki hjá iðnaðarmönnum. „Þau höfðu ekki hækkað eins mikið og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann. „Það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að lækka sig. Það er allt eins gott að hanga þá bara heima frekar en að borga með sér.“