Útilega í Þrastaskógi fór úr böndunum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Um tíma var öll næturvakt lögreglunnar á Selfossi bundin yfir útkalli í Þrastaskógi í Grímsnesi aðfaranótt sunnudags þar sem útilega skólafélags hafði farið algörlega úr böndunum.

Skólafélagið boðaði til útilegu í Þrastaskógi án þess að til þess væru nokkur leyfi. Lítil, ef einhver, gæsla var á svæðinu og hinir ýmsu aðilar búnir að gera sig heimakomna þar án þess að vera sérstaklega boðið.

Lögreglan var kölluð til aðfaranótt sunnudags en þá var skemmtunin komin algerlega úr böndunum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar segir einnig að skipuleggjendur skemmtunarinnar hafi gert sitt besta til að koma skikki á sitt fólk en á endanum voru flestir tjaldgestir flúnir undan leiðindum tiltölulega fámenns hóps gesta á svæðinu. Einhverjar líkamsmeiðingar urðu og eru mál til rannsóknar vegna þess. Einn gestanna gisti fangageymslur fram til morguns en hann reyndist stjórnlaus á vettvangi.

ML-ingar til fyrirmyndar
Sömu helgi var skólafélag Menntaskólans á Laugavatni var með sína árlegu útilegu á tjaldsvæðinu við Faxa í Biskupstungum. Þar var gæsla til fyrirmyndar og ekki vitað annað en að skemmtunin hafi farið hið besta fram, að því að fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Mikil umferð var um Suðurland alla síðustu viku og ekki síst um helgina. Tjaldstæði voru meira og minna fullsetin og í flestum tilfellum fór þar allt vel fram.

Fyrri greinSnæfríður Sól fer til Tokyo
Næsta greinHvorugt liðið sátt við eitt stig