Útibú Sparisjóðsins og Landsbankans verða sameinuð fljótlega

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur tekið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja, frá og með deginum í dag.

Starfsemi útibúa Sparisjóðs Vestmannaeyja verður óbreytt fyrst um sinn og útibúið á Selfossi mun opna á hefðbundnum tíma í fyrramálið. Það verður hins vegar sameinað útibúi Landsbankans á Selfossi fljótlega en allir starfsmenn Sparisjóðsins eru nú orðnir starfsmenn Landsbankans.

Sparisjóður Vestmannaeyja hefur um nokkurt skeið ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um eigið fé og þurfti því að finna lausnir á fjárhagsvanda sínum. Stjórn sparisjóðsins leitaði því til Landsbankans eftir að aðrar tilraunir til að endurreisa sjóðinn báru ekki árangur.

Í framhaldi komust stjórn sparisjóðsins og Landsbankinn að samkomulagi um samruna félaganna.

Sparisjóður Vestmannaeyja er með starfsstöðvar á fimm stöðum á landinu: Í Vestmannaeyjum, á Selfossi, Höfn, Breiðdalsvík og Djúpavogi. Landsbankinn rekur útibú á Selfossi og Höfn og þar verða útibú sameinuð fljótlega.

Lögð verður áhersla á að samruninn efli þjónustu við viðskiptavini og samskipti þeirra við bankann. Öll útibú sparisjóðsins opna á venjubundnum tíma á mánudag og viðskiptavinir geta snúið sér til sinna þjónustufulltrúa að venju. Fyrst um sinn munu reikningar og reikningsnúmer haldast óbreytt.

Fyrri greinNessandur kemur ekki til greina sem urðunarstaður
Næsta greinÞrjár frá Selfossi í U19