Úti að aka á annan í jólum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ökumaður sem lögreglumenn stöðvuðu á Eyravegi á Selfossi á annan dag jóla reyndist vera með ýmsar syndir í pokahorninu. Lögreglan stöðvaði bílinn þar sem númeraplötuna vantaði aftan á hann. Í ljós kom að ökumaðurinn reyndist vera bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var að auki próflaus vegna fyrri brota.

Á miðvikudag fékk lögreglan tilkynningu um undarlegt aksturslag bíls á Suðurlandsvegi og reyndist ökumaðurinn ölvaður og tveimur dögum fyrr var stúlka stöðvuð á Selfossi en hún er grunuð um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi en þar er einnig greint frá því að sex ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í liðinni viku, fjórir þeirra í Rangárvallasýslu.

Fyrri greinFjögur umferðarslys á tveimur klukkutímum
Næsta greinÁrni Freyr átti besta slagorðið