Úthlutað til sex verkefna úr Kvískerjasjóði

Nýlega úthlutaði Kvískerjasjóður styrkjum ársins 2017. Tíu umsóknir bárust og hlutu sex verkefni styrk að þessu sinni.

Hæsta styrkinn hlutu Freydís Vigfúsdóttir, Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Bryndís Marteinsdóttir, Háskóla Íslands, 700 þúsund krónur fyrir verkefnið „Úr hafi að jökli“. Á Breiðarmerkursandi verpa talsvert af sjófuglum, skúmar og kjóar og má ætla að varpi þeirra fylgi töluverður næringarefnaflutningur frá hafi til sandsins. Fuglarnir mynda t.d. þúfur og gróin hreiðurstæði sem hugsanlega eru meginafl í framvindu lífs á þessum svæðum. Markmið þessa verkefnis er að nota þverfaglega nálgun til að ákvarða hvaða áhrif næringarefnaflutningur skúms og kjóa úr hafi hefur á uppbyggingu vistkerfa á lífvana landi fyrir framan Breiðamerkurjökul.

Anna Ragnarsdóttir Pedersen og Emil Moráverk Jóhannsson hlutu 500 þúsund króna styrk til rannsóknar á smíðagripum Helga Björnssonar frá Kvískerjum. Helgi hefur skilið eftir sig mikinn fjölda nytjamuna, sem margir eru nýttir enn í dag. Þekktasti smíðagripur Helga er eflaust skírnarfontur sem er í Hofskirkju. Markmið með verkefninu er að skrásetja muni sem Helgi Björnsson smíðaði og safna saman upplýsingum um það hvernig munirnir eru nýttir í dag.

Fræafrán á Skeiðarársandi
Bryndís Marteinsdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Kristín Svavarsdóttir, hjá Landgræðslu ríkisins hlutu 400 þúsund króna styrk til að rannsaka fræafrán á Skeiðarársandi. Á sandinum gefst einstætt tækifæri til að rannsaka náttúrulega þróun vistkerfa frá fyrstu stigum gróðurframvindu og þá þætti sem hafa áhrif á hraða og stefnu hennar. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif afráns skordýra á fræframleiðslu tveggja algengra plöntutegunda á Skeiðarársandi, músareyra og móasef.

Viðhald á fiðrildagildrum í Skaftafellssýslum
Náttúrustofa Suðausturlands hlaut 265 þúsund króna styrk til að viðhalda fiðrildagildrum í Skaftafellssýslum. Tvær gildrur hafa verið í Einarslundi við Hornafjörð frá 2014 og ein í Mörtungu í Skaftárhreppi frá 2015 en áður voru þessar gildrur í notkun á Kvískerjum um nokkurn tíma. Markmið verkefnisins er að halda úti fiðrildagildrum í Skaftafellssýslum á hverju ári og viðhalda þeim rannsóknum sem hófust fyrir nokkru síðan á Kvískerjum.

Rannveig Ólafsdóttir og Þorvarður Árnason hljóta 500 þúsund króna styrk til þróunar aðferða til að efla þátttöku almennings í skipulagi og ákvarðanatöku sjálfbærrar ferðamennsku. Verkefnið beinist að Suður og Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og sveitarfélögunum Hornafirði og Skaftárhreppi.

GPS mælingar á jarðskorpuhreyfingum við Öræfajökul
Ásta Rut Hjartardóttir hjá Jarðvísindastofnun HÍ hlýtur 500 þúsund króna styrk til mælinga á jarðskorpuhreyfingum við Öræfajökul. Nota á GPS mælingar til að athuga hvort kvika sé að safnast fyrir í kvikuhólfi Öræfajökuls. Slíkar mælingar hafa ekki verið gerðar síðastliðin 12 ár og því er orðið brýnt að uppfæra mælingarnar. Ef breytingar mælast, má nota mælingarnar til að meta á hversu miklu dýpi kvikuhólfið er og hversu mikið rúmmál af kviku safnast fyrir. Mælingarnar munu einnig nýtast vel sem bakgrunnsmælingar ef kvikusöfnun á sér stað síðar.

Hlutverk Kvískerjasjóðs er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúrufari og menningu í Austur-Skaftafellssýslu. Frá upphafi hefur sjóðurinn stutt við margvísleg metnaðarfull verkefni sem bæði eru mikilvægt framlag inn í vísindaheiminn en ekki síður munu þau geta gagnast til að styrkja framþróun byggðar í Austur-Skaftafellssýslu.

Fyrri greinTveir fluttir með þyrlu á sjúkrahús
Næsta greinNjólahátíðin mikla í Bragganum