Útflutningur vikurs til Ameríku að aukast

Horfur eru á að nokkru meira verði flutt út af vikri til Bandaríkjanna en áður á vegum Jarðefnaiðnaðar ehf. í Þorlákshöfn.

Síðar í þessum mánuði verður skipað út um 10.000 tonnum af vikri á þennan nýja markað sem félagið hefur verið að vinna í undanfarin ár.

Að sögn Bjarna Jónssonar hjá Jarðefnaiðnaði er erfitt að komast inn á markað í Bandaríkjunum en bjartsýni hefur aukist með viðtökur og ljóst að útflutningur þangað er að glæðast enda virðist byggingamarkaður í Bandaríkjunum vera að rétta úr kútnum.

Nýlega var skipað út vikri í tvö skip fyrir Evrópumarkað sem hefur verið traustasti markaðurinn fyrir Hekluvikurinn sem Jarðefnaiðnaður flytur út.