Útbúa brimbrettaaðstöðu við Þorlákshöfn

Bæjarstjórn Ölfuss hefur falið bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa að gera áætlum um stofnkostnað og rekstur á brimbrettaaðstöðu við Þorlákshöfn.

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku lá fyrir erindi frá Bjarka Þorlákssyni, fyrir hönd surf.is, þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið komi upp aðstöðu fyrir brimbrettaiðkendur við fjöruna í Skötubót.

Bæjarstjórn tók vel í hugmyndina en í fjárhagsáætlun 2014-2017 er gert ráð fyrir því að hefja undirbúning að uppsetningu á aðstöðu fyrir brimbrettafólk en jafnframt tekið fram að útlista verði verkefnið vel áður en farið er í framkvæmdir.

Því var samþykkt samhljóða að bæjarstjóra og forstöðumanni skipulags-, byggingar- og umhverfissviðs yrði falið að gera áætlun um stofnkostnað og rekstur aðstöðu í samræmi við erindið.