Útboð raskaði ekki samkeppni

Samkeppniseftirlitið segir útboð á sorphirðu í Grímsnes- og Grafningshreppi og í Bláskógabyggð með tilmælum um kaup á aukinni þjónustu af Gámaþjónustunni ekki raska samkeppni.

Því muni eftirlitið ekki aðhafast frekar í máli sem sneri að framkvæmd samnings í kjölfar útboðsins.

Málið snýr að kvörtun Íslenska gámafélagsins til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að sveitarfélögin beindu þeim tilmælum til sumarhúsaeigenda að ef þeir vildu láta sækja til sín rusl þá yrðu þeir að semja við Gámaþjónustuna, sem sér um hefðbundna sorphirðu á vegum sveitarfélagsins.

Í úrskurðarorðum Samkeppniseftirlitsins segir einnig að mælst sé til þess að útboðum eða verðkönnunum sé beitt við kaup á þjónustu vegna sorphirðu til að tryggja samkeppni og sem besta nýtingu fjármuna sveitarfélaganna.

Þá er einnig mælst til þess að gildistími samnings við þjónustuverktaka í kjölfar útboðs eða verðkönnunar sé ákvarðaður með hliðsjón af langtímahagsmunum sveitarfélaganna af því að örva samkeppni og þannig tryggja hagkvæmari sorphirðu.

Fyrri greinJón Arnar mætir aftur til leiks
Næsta greinÞrír garðar í Hveragerði verðlaunaðir