Útaf veginum aftur og aftur

Björgunarsveitin Tintron í Grímsnesi hefur aðstoðað vegfarendur í Grímsnesi í dag þar sem glerhálka er á vegum.

Nokkrir vegfarendur lentu í miklum vanda í hálku og hífandi roki og voru dæmi um það að sömu bílarnir færu aftur útaf veginum þegar búið var að draga þá upp.

Reynt hefur verið að halda helstu vegum, svo sem Biskupstungnabraut og Þingvallavegi, opnum í dag en ekki hefur verið farið í hliðarvegi í uppsveitum sunnanlands. Þar er mikil hálka og varhugavert að vera á ferð.