Úrsögn úr Skólaskrifstofu frestað

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti í gær að fresta úrsögn sveitarfélagsins úr Skólaskrifstofu Suðurlands. Skipaður verður vinnuhópur vegna málsins.

Arna Ír Gunnardóttir, S-lista, lagði fram tillögu um að ákvörðuninni verði frestað og að skipaður yrði vinnuhópur með fulltrúum frá fræðslusviði, fulltrúum frá leik- og grunnskólum ásamt óháðum aðilum. Hópurinn á að „skoða hvernig sveitarfélagið getur gert góða sérfræðiþjónustu betri til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar,“ segir í tillögu Örnu Írar.

„Vinnuhópurinn móti framtíðarsýn fyrir sérfræðiþjónustuna í sveitarfélaginu og skili tillögum þar um til bæjaryfirvalda. Í framhaldi af því verði lagt mat á ákvörðun um úrsögn úr samstarfi um skólaskrifstofu eður ei.“

Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, hnýtti breytingartillögu aftan við tillögu Örnu þar sem segir að vinnuhópurinn skuli skipaður af bæjarráði í samráði við fræðslustjóra og skal hann skila af sér skýrslu til bæjarstjórnar um málið eigi síðar en 31. desember nk.

Tillaga Örnu með viðbót Söndru var borin undir atkvæði og samþykkt með átta atkvæðum, Gunnar Egilsson D-lista sat hjá.

Elfa Dögg Þórðardóttir D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu. Hún segist samþykkja þessa málamiðlunarleið sem kemur til móts við gagnrýniraddir sérfræðinga innan Sveitarfélagsins Árborgar vegna úrsagna áforma meirihluta meirihlutans í Árborg. Elfa tók fram að hún væri alfarið mótfallin áformum um úrsögn úr skólaskrifstofunni.

Fyrri greinHamar úr leik í bikarnum – Ægir og Árborg leika í kvöld
Næsta greinArnar Þór í Árborg