Úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. mars

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Maðurinn sem handtekinn var í Vík í Mýrdal um hádegi í gær, grunaður um vinnumansal var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. mars í Héraðsdómi Suðurlands.

Maðurinn er fæddur árið 1975 á Sri Lanka.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi vegna meintra brota gegn 227. gr. a. almennra hegningalaga, en lagagreinina má sjá hér að neðan.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rannsóknir sem þessar séu afar viðkvæmar og því mun lögregla ekki upplýsa frekar um gang hennar eða efni að svo stöddu. Rannsóknardeild og ákærusvið lögreglustjórans á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og nýtur aðstoðar mansalsteymis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

[227. gr. a. [Hverjum þeim sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í þeim tilgangi að misnota mann kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans skal refsa fyrir mansal með allt að [12 ára fangelsi]:1)
1. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi og við það er beitt eða hefur verið beitt ólögmætri nauðung skv. 225. gr., eða frelsissviptingu [skv. 1. mgr. 226. gr.],1) eða hótun skv. 233. gr., eða ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður eða með því að hagnýta sér bága stöðu viðkomandi.
2. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi yngri en 18 ára.
3. Að láta af hendi greiðslu eða annan ávinning til að afla samþykkis til misnotkunarinnar hjá manni sem ræður gerðum annars manns.
Sömu refsingu skal sá sæta sem tekur við greiðslu eða öðrum ávinningi skv. 3. tölul. 1. mgr.
Beinist brot skv. 1. mgr. gegn barni skal taka það til greina til þyngingar refsingunni.
Sömu refsingu skal hver sá sæta sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í því skyni að greiða fyrir mansali:
1. Að falsa ferða- eða persónuskilríki.
2. Að annast milligöngu um slík skilríki eða útvega þau.
3. Að halda eftir, fjarlægja, skemma eða eyðileggja ferða- eða persónuskilríki annars einstaklings.]2)]3)

Fyrri greinKrafist gæsluvarðhalds yfir grunuðum vinnumansalsmanni
Næsta greinÖruggt hjá Selfyssingum – naumt tap Mílunnar