Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á íkveikju

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í morgun, að kröfu lögreglustjórans á Selfossi, 26 ára gamlan karlmann í gæsluvarðhald til 5. mars næstkomandi vegna rannsóknar á íkveikju að Birkivöllum 15 á Selfossi í gærmorgun.

Maðurinn var handtekinn í gærmorgun en fyrsta aðkoma á vettvangi benti til þess að um íkveikju væri að ræða. Lögreglan hefur einnig tekið skýrslu af nokkrum einstaklingum til viðbótar í tengslum við rannsóknina sem nú stendur yfir.

Lögreglan gefur ekki frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu en biður alla þá sem telja sig hafa upplýsingar sem varða málið að hafa samband í síma 480 1010.