ÚR VÖR ýtt úr vör

Vefritinu ÚR VÖR var ýtt úr vör föstudaginn 15. mars síðastliðinn. Vefritið fjallar um menningu, listir, nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni.

„ÚR VÖR er ætlað að varpa ljósi á hvernig fólk um allt land notar skapandi aðferðir til að leita lausna, og með því, öðrum veittur innblástur. Langt er á milli landshorna en ÚR VÖR er vettvangur sem sameinar, styrkir og færir okkur nær hvort öðru,“ segir Aron Ingi Guðmundsson.

Aron Ingi og kona hans, Julie Gasiglia, eru forsprakkar vefritsins en þau stofnuðu og reka einnig menningarmiðstöðina Húsið-Creative Space á Patreksfirði.

Aron Ingi ritstýrir vefritinu og Julie er hönnuður þess og auk þeirra er fjögurra manna ritstjórn, þau Arnar Sigurðsson, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir.

Nokkrir lausapennar víðs vegar um landið munu skrifa reglulega pistla fyrir vefritið og er öllum velkomið að senda inn efni til birtingar. Hluthafar á bakvið vefritið eru 16 talsins og fékk hugmyndin góðan stuðning í hópfjármögnunarferli fyrr í vetur á Karolina Fund, þar sem 93 aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, studdu framtakið.

Það er því um að gera að fylgjast með á síðunni www.urvor.is.

Ábendingum og efni er hægt að koma á framfæri á netfangið urvor@urvor.is.

Hjónin Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia sem eru forsprakkar vefritsins. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKryddjurtir í eldhúsgluggann
Næsta greinSýningum að ljúka á Nönnu systir