Úr hámarki í lágmarksútsvar

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hyggst lækka útsvar í sveitarfélaginu all verulega á næsta ári, úr 14,44% í 12,44%, eða úr hámarksútsvari í lágmarksútsvar.

Þar með fer hreppurinn í hóp örfárra sveitarfélaga á Íslandi sem skattleggja íbúa sína að lágmarki.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti segir þetta gert í ljósi umræðu um álögur á íbúa. „Þetta er í raun viðleitni til að bregðast við því og létta undir,“ segir Gunnar.

Þá búi einnig að baki ákvörðuninni að sveitarfélagið fengi ekkert úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, og því sé óþarfi að undirgangast þá kröfu að hafa útsvarið í hámarki, en það er forsenda þess að sveitarfélög geti fengið úr þeim sjóði. Gunnar segir stöðu sveitarsjóðs góða, þótt skuldahlutfallið verði nálægt 150%.

„Það skýrist af uppkaupum á fasteignum af félaginu Fasteign ehf“, segir Gunnar. Hann segir hinsvegar ljóst að ef vilji væri til mætti greiða upp skuldir sveitarfélagsins að fullu á fimm til sex árum. „Það er ef við myndum lágmarka fjárfestingar,“ bætir hann við.

Fyrri greinFlughált undir Fjöllunum
Næsta greinNat-vélin með 25 fráköst