Upplýsingamiðstöðvar verði einnig öryggismiðstöðvar

Á dögunum komu saman aðilar úr stoðkerfum ferða- og menningarmála á Suðurlandi á samráðsfundi sem haldin var í Listasafni Árnessinga.

Tilgangur fundarins var að koma saman og kynna fyrir hvort öðru þau verkefni sem verið er að vinna að ásamt því að miðla upplýsingum af hverju svæði.

Samráðsfundurinn er liður í því að efla samstarf ferðaþjónustunnar á Suðurland sem er hluti af innra markaðsstarfi Markaðsstofu Suðurlands. Sandra Brá Jóhannsdóttir, verkefnastjóri Friðar og Frumkrafta, hélt kynningu um virði heilsársopnunar upplýsingamiðstöðva á Suðurlandi og Guðmundur Fannar Vigfússon verkefnastjóri, Suðurland allt árið, kynnti fundargestum um framgang verkefnisins.

Góðar umræður sköpuðust á meðal fundargesta um málefni sem snúa að heilsársferðaþjónustu og heilsársopnun upplýsingamiðstöðva á Suðurlandi og hvaða hlutverki upplýsingamiðstöðvarnar gegna.

Undanfarið hafa komið upp tilfelli þar sem ferðamenn hafa orðið fyrir óhöppum vegna veðurs og skorts á upplýsingamiðlun. Þetta er málefni sem ber að ræða og leita lausna svo ferðamenn yfirgefi ekki Ísland með slæma upplifun og ef til vill háan reikning vegna skemmda á bílaleigubifreið þeirra. Upp kom sú umræða að endurskipuleggja þyrfti tilgang upplýsingamiðstöðva og starfsemi þeirra á þann hátt að þær yrðu í raun upplýsinga- og öryggismiðstöðvar.

Til stendur að halda fleiri fundi sem þessa því það er nauðsynlegt fyrir aðila í stoðkerfum ferða- og menningamálum Suðurlands að vera meðvitaðir um sitt nánasta umhverfi, samstarfsaðila og nágranna. Markaðsstofa Suðurlands leggur mikið uppúr því að efla innra markaðsstarf Markaðsstofunnar og aðila í stoðkerfum ferða- og menningamála á Suðurlandi.

Fyrri greinHangikjöt og handverk á jólatorginu
Næsta greinSundlaug Stokkseyrar lokað vegna kulda