Upplifun að versla á Selfossi

„Það kemur mikið af ferðamönnum að versla hjá okkur, eins bústaðafólkið sem kemur allt árið um kring.

Selfyssingar eru líka að auka verslun í heimabyggð,“ segir Erla Gísladóttir, annar eigandi verslunarinnar Motivo á Selfossi.

Berglind Rún Birkisdóttir, starfsmaður Sportbæjar á Selfossi, tekur í sama streng og Erla. „Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur í sumar. Hingað kemur mikið af ferðamönnum og eins hafa heimamenn verið mjög duglegir að versla í sinni heimabyggð.“

Erla segir að verslanir á Selfossi séu samkeppnishæfar við verslanir á höfuðborgarsvæðinu. „Við bjóðum upp á gott verð og góða þjónustu. Það er líka nóg að gera á kaffihúsunum hér og Reykvíkingar kunna virkilega vel að meta okkur. Við fáum oft að heyra að fólki hafi verið bent á þessa búð og fáum mikið af hrósi frá fólki,“ segir Erla og bætir því við að stærsta auglýsingin sé ánægðir kúnnar.

„Það koma iðulega hingað hópar með strætó frá Reykjavík. Fólk byrjar kannski á að kíkja á Kaffi krús og kíkir svo í búðirnar í kring. Síðan fær það sér að borða aftur á Krúsinni áður en það fer aftur heim,“ segir Erla.

Motivo hefur verið starfrækt frá nóvember 2007. Frá árinu 2009 hefur verslunin verið staðsett við Austurveginn, þar sem umferðaræðin liggur í gegnum bæinn. Að sögn Erlu hefur mesta söluaukningin verið frá 2013-2014. Hún segir jafnframt að þolinmæði sé lykillinn að eigin rekstri.

„Við höfum nánast allt hér sem við þurfum og hér eru margar fínar verslanir. Það er gaman að koma á Selfoss og fólki finnst það upplifun að koma hingað að versla,“ segir Erla að lokum.

Fyrri greinHafdís Huld á Halldórskaffi í kvöld
Næsta greinBeittu klippum til þess að ná ökumanninum út