Uppgert veiðihús orðið að safni

Uppgert veiðihús kennt við Guðmund Einarsson frá Miðdal sem staðsett er í Hrunakrók í Hrunamannahreppi var formlega opnað á dögunum að viðstöddu fjölmenni.

Er þar nú að finna veiðisafn með ýmsum munum tengdum sögu hússins og þeirra sem þar gistu. Húsið var upprunalega flutt á hestum í Hrunakrók í júní 1946 af félögum í veiðifélaginu Flugunni, en var fært að Flúðum til viðgerðar í nóvember í fyrra. Þá var húsið híft í heilu lagi og flutt með vörubíl. Uppgerð á húsinu, sem var í höndum Guðmundar Magnússonar húsasmíðameistara á Flúðum lauk í júní sl. og flutt inn í Hrunakrók að nýju með vörubíl og því komið fyrir á upprunalegum stað.

Húsið er upprunalega varðskýli hermanna við Ölfusárbrú í seinna stríði en var flutt þaðan og upp í Hrunamannahrepp af Kristófer Ingimundarsyni á Grafarbakka, en Kristófer vann hjá hernum. Af því er haft er eftir Gunnari Kristmundssyni frá Kaldbak var það flutt af föður hans, Kristmundi Guðbrandssyni og fleirum á hestum, bundið á reiðinga frá Kaldsbak að Hrunakrók.

Fjármunir til viðgerðar á húsinu bárust frá Veiðifélagi Árnesinga, Menningarráði Suðurlands og Lax-á ehf, sem er leigutaki Stóru-Laxár en Esther Guðjónsdóttir formaður Stóru-Laxárdeildar hefur haft umsjón með uppgerðinni. Árni Baldursson hjá Lax-á hefur haft umsjón með leit að safnmunum og myndum í safnið.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinInnbrot í Grímsnesi og rúðubrot á Selfossi
Næsta greinVatnsleysutorfan hlaut verðlaunin í annað sinn