Uppfært í appelsínugula viðvörun

Veðurstofan hefur uppfært viðvörun dagsins í appelsínugula viðvörun. Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi frá kl. 15 í dag til miðnættis og þá tekur við gul viðvörun frá miðnætti og til hádegis á þriðjudag.

Gert er ráð fyrir norðaustan 20-28 m/sek en djúp lægð nálgast landið úr suðri. Hvassast verður undir Eyjafjöllum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll.

Vegagerðin reiknar með að loka Suðurlandsvegi frá Markarfljóti að Vík frá kl. 15:30 eða 16:00 í dag mánudag til kl. 7:00 að morgni þriðjudags.

Skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður verður þegar veðrið er verst og jafnvel er hætta á foktjóni.

Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðanda má búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði.

Lokað í Öræfunum
Staðbundið ofsaveður verður suðaustanlands með hviðum í Öræfum og við Lómagnúp allt að 40-50 m/s. Gera má ráð fyrir að þjóðveginum verði lokað í Öræfum um miðjan dag í dag, þangað til í fyrramálið á milli Fosshótels við Núpá og Jökulsárlóns.

UPPFÆRT 10:35

Fyrri greinBjörgunarsveitir aðstoðuðu ökumenn við Skjaldbreið
Næsta greinForeldrar beðnir um að sækja leikskólabörn fyrr